Vegna snjóflóðahættu verður veginum um Súðavíkurhlíð lokað í kvöld klukkan 20. Þá má búast við að veginum um Ólafsfjarðarmúla verði lokað síðdegis eða undir kvöld. Vegfarendur eru beðnir að fylgjast vel með fréttum eða vera í sambandi við upplýsingasímann 1777. Vegna slæms veðurútlits er óvíst hvort opnað verði aftur fyrr en eftir jól.
Á vef Vegagerðarinnar er vakin athygli á mjög slæmri veðurspá og horfum á að vegir á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi gætu lokast í kvöld.
Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja en þó þæfingur á Gemlufallsheiði. Varað er við óveðri bæði á Gemlufallsheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Ófært og óveður er á Klettshálsi, en opið norður í Árneshrepp á Ströndum.
Snjókoma er um mestallt Norðurland og það er hálka eða snjóþekja á nánast öllum vegum. Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi. Hálka eða hálkublettir eru með ströndinni frá Eskifirði suður að Vík.
Ábending frá veðurfræðingi:
„Fram á morguninn má reikna með hríðarveðri, skafrenningi og takmörkuð skyggni um landið norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi um Borgarfjörð og Holtavörðuheiði norður um á Siglufjörð og Ólafsfjörð. Suðvestanlands verður viðvarandi bleytusnjó fram á kvöldið, en vindur hægur.“
„Á aðfangadag hvessir af norðaustri. Reikna má með stormi og stórhríð austanlands frá miðjum degi en éljagangi og skafrenningi frá því um morguninn norðanlands og á Vestfjörðum.“
Vegir lokaðir vegna snjóflóðahættu
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
