„Það er allt á fullu og stjörnurnar að skila sér í hús. Tilda Swinton og Jim Jarmusch eru í Keflavík og líkar það vel og Nick Cave og félagar eru rétt ókomnir, þannig að það er nóg að gera hérna. En ég er með gott teymi í kringum mig sem sækir liðið og sendist með það og passar upp á að allt gangi vel.“

Tómas er starfsmaður Útón en er í nokkurra mánaða launalausu fríi til að helga sig hátíðinni, sem er honum hjartans mál. „Ég skrifaði mastersritgerðina mína um útflutning á íslenskri tónlist og BS-ritgerðin mín var um íslenska tónlist sem landkynningu. Var svo umboðsmaður Hjálma í eitt ár og hef verið opinber tengiliður Hróarskelduhátíðarinnar síðan ég var átján ára. Líf mitt hefur meira og minna allt snúist um tónlist síðan ég var átta, níu ára.“
Og spilarðu sjálfur? „Já, ég lærði á trommur í fimm ár og spilaði í hljómsveit sem hét Rými fyrir mörgum árum. Mig hefur eiginlega aldrei langað að fást við neitt annað.“
Og ætlarðu að hafa ATP árlegan viðburð héðan í frá? „Já, vonandi. Við sjáum til hvernig Íslendingar taka í þetta. Ef þetta heppnast vel stefni ég að því að halda hátíðina aftur á næsta ári.“