„Við höfum verið að hanna og framleiða litríkar endurskinshúfur fyrir skóla- og leikskólakrakka fyrir VÍS síðastliðin þrjú ár. VÍS hefur svo verið að gefa viðskiptavinum sínum húfur fyrir börnin og það hafa hreinlega verið biðraðir út úr dyrum í útibúum um allt land,“ segir Helga Árnadóttir sem rekur Tulipop ásamt Signýju Kolbeinsdóttur hönnuði.
Saman stofnuðu þær Tulipop fyrir þremur árum og eru búnar að skapa ævintýraheim með litríkum karakterum sem þær nota til að skreyta ýmsar skemmtilegar gjafavörur fyrir börn á öllum aldri. „Signý settist niður með markaðsdeild VÍS og fékk hugmynd að þessari snilldarhúfu með öryggisatriðin að leiðarljósi og okkur fannst þetta svo skemmtilegt verkefni.“
