Bíó og sjónvarp

Twin Peaks snýr aftur

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Leikstjórinn David Lynch ætlar að ljúka við sjónvarpsþáttaseríuna Twin Peaks sem var tekin af dagskrá árið 1991. Í þáttunum var ýjað að því að seríunni myndi verða haldið áfram síðar þegar andi myrtu fegurðardrottningarinnar Lauru Palmer hvíslaði í orð alríkislögreglumannsins Dale Cooper að hún myndi sjá hann á ný eftir 25 ár.

David leitaði að leikurum til að skjóta prufuþátt af Twin Peaks en tökur áttu að fara fram í dag í Los Angeles. Leitaði hann sérstaklega að kynþokkafullri stúlku, dökkhærðri eða rauðhærðri, til að leika gengilbeinu.

Þættirnir Twin Peaks voru frumsýndir árið 1990 og slógu í gegn hjá gagnrýnendum. Sópuðu þeir að sér fjórtán tilnefningum til Emmy-verðlaunanna. „Pilot“-þátturinn fékk mesta áhorf árið 1989-90 og þegar serían fór í sýningar sló hún fjögurra ára gamalt áhorfsmet á sjónvarpsstöðinni ABC.

Um miðja aðra seríu kom í ljós hver myrti Lauru Palmer og þá fór söguþráðurinn að þynnast. Þátturinn var tekinn af dagskrá viku eftir að fimmtándi þáttur í annarri seríu lenti í 85. sæti yfir áhorf.

Ráðgátan í þáttunum var hver myrti Lauru Palmer.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×