Golf

Mickelson magnaður í Abú Dabí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mickelson brosti til áhorfenda í morgun.
Mickelson brosti til áhorfenda í morgun. Vísir/Getty
Phil Mickelson sýndi allar sínu bestu hliðar á Abú Dabí-meistaramótinu í golfi í morgun. Hann skilaði sér í hús á 63 höggum eða níu undir pari vallarins.

Mickelson fékk fjóra fugla og einn örn á fyrri níu holunum og bætti svo við fimm fuglum á seinni níu en hann fékk alls tvo skolla í dag.

Skotinn Craig Lee er í forystu fyrir síðasta keppnisdaginn en hann lék á 69 höggum í dag og er á samtals tólf höggum undir pari. Mickelson og Gagganjeet Bhullar frá Indlandi koma svo næstir á tíu höggum undir pari.

Rory McIlroy lék á 68 höggum í dag en var refsað um tvö högg fyrir að taka víti á röngum stað á annarri holu. Hann er í fjórða sæti á níu undir pari ásamt Spánverjanum Pablo Larrazabal.

Sýnt er beint frá mótinu á Golfstöðinni en útsending frá lokakeppnisdeginum hefst klukkan níu í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×