Það hlánar á ný og hvessir á landinu þegar líður á daginn. Blotnar ofan í ís og klaka sem víða er á vegum um vestan- og norðanvert landið. Við það getur hæglega orðið staðbundið flughált.
Austan stormur og hviður 30-35 m/s undir Eyjafjöllum og í Mýrdal frá því upp úr hádegi og til kvölds. Eins á Kjalarnesi um tíma á milli kl. 15 og 18 og í Öræfum undir kvöldið.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir frá hálkublettum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut og Suðurnesjum en hálku á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Suðurlandi.
Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi og Vestfjörðum og sumsstaðar þokuloft á fjallvegum.
Á Norðurlandi er víða hált og sumsstaðar éljar. Það er þó talsvert autt við Eyjafjörð og alveg greiðfært með ströndinni frá Húsavík austur á Vopnafjörð. Aftur á móti er flughált á Hólasandi og Mývatnsöræfum.
Á Austurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á fjallvegum og sumstaðar ofankoma eða skafrenningur. Greiðfært er frá Reyðarfirði suður um með ströndinni, allt vestur í Vík.
Hlánar og hvessir á landinu í dag
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
