Innlent

Sérstaða Íslands við fisksölu hefur tapast

Svavar Hávarðsson skrifar
Umhverfi sölumála í sjávarútvegi hefur gjörbreyst á tiltölulega stuttum tíma.
Umhverfi sölumála í sjávarútvegi hefur gjörbreyst á tiltölulega stuttum tíma. Fréttablaðið/Valli
Markaðssetning íslenskra sjávarafurða er ekki eins markviss og árangursrík eftir að stóru sölusamtökin hurfu af sviðinu. Norðmenn og Rússar hafa unnið upp forskot Íslands í sjófrystingu. Afli smábáta skiptir miklu máli í markaðssetningu.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, framkvæmdastjóra Iceland Seafood á Íslandi, á fundi atvinnuveganefndar Alþingis. Þar var staða sjávarútvegs til umfjöllunar á breiðum grundvelli.

Bjarni var spurður á fundinum hvort breytt fyrirkomulag sölumála ynni gegn hagsmunum greinarinnar, en allt til síðustu aldamóta hafði Ísland sérstöðu í útflutningsmálum sjávarafurða.

„Ég tel að markaðssetningu íslenskra sjávarafurða hafi sett niður, samanborið við þann tíma sem sterk sölusamtök voru samnefnari fyrir íslenskan fisk, og menn þekktu vörumerkin. Því miður verður það að viðurkennast að við höfum ekki þessa sterku stöðu sem var,“ sagði Bjarni.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri grænna, innti Bjarna eftir því hvaða hlutverki smábátaútgerðin hefði í stóru samhengi markaðsmála fyrir íslenskan fisk, ekki síst í ljósi kröfu um rekjanleika og gæðavottun og hvort tækifæri liggi í því smáa sem verðmætari vöru.

Bjarni sagði smábátaaflann mjög mikilvægan í markaðssetningu. „Menn eru alltaf að tala um að afhendingaröryggi í sjávarútvegi sé mikilvægt, og það má spyrja, ef afli smábáta dytti út af mörkuðum yfir sumarið, hvað hægt væri að bjóða. En þessi afli er lykillinn að því að við getum boðið ferskan fisk á ársgrundvelli,“ sagði Bjarni og bætti við að afli smábáta tengdist vissulega líka aukinni kröfu um rekjanleika sjávarfangs þar sem neytandinn vill vita hvar fiskurinn er dreginn á land og af hverjum. „Þetta styður hvort annað, stórt og smátt.“

Bjarni sagði að Norðmönnum og Rússum hefði tekist að vinna upp forskot Íslands í sjófrystingu, og sáralítill munur væri á gæðum á milli landa. Ólíkt því sem var. „Sérstaðan okkar er núna í línufiski og gámafiski og það er ekki tilviljun að stór félög eru að kaupa línuskip.“

Fáir stórir önnuðust umboðssölu

Ísland hafði nokkra sérstöðu þegar kom að útflutningi sjávarfangs, en hann var í höndum stórra sölusamtaka eins og Sölumiðstöðvar hraðfrysti­húsanna hf. (nú Icelandic), Íslenskra sjávarafurða og SÍF hf. Tvö síðarnefndu fyrirtækin voru sameinuð og starfa nú undir nafninu Iceland Seafood International.

Hugsunin á bak við þessi samtök var í grundvallaratriðum sú að þau væru eins og söluskrifstofur framleiðenda en afurðirnar voru seldar í umboðssölu.

Upp úr 1990 fóru fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu í auknum mæli sjálf að annast sölumál afurða sinna. Stóru sölusamtökin fóru í kjölfarið að breyta um áherslur í rekstri.

Í dag starfa á fjórða tug fyrirtækja sem stunda sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum frá Íslandi, en hjá þessum fyrirtækjum starfa um 250 manns.Heimild: Íslenski sjávarklasinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×