Innlent

Vont veður áfram vítt um land

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Róbert
Um allt norðan- og austanvert landið er áfram spáð vonskuveðri í dag. Ekki er von á betra veðri á Norðurlandi fyrr en í fyrramálið. Í kvöld mun draga úr vindi á Vestfjörðum og Vesturlandi, en áfram er búist við skafrenningi og slæmu skyggni.

Gera má ráð fyrir vindhviðum, 30-40 m/s á Kjalarnesi, en 25-35 m/s undir Hafnarfjalli.

Ísafjarðardjúp er lokað og Steingrímsfjarðarheiði einnig. Ekki er reiknað með að opna þær leiðir fyrr en á morgun. Ólafsfjarðarmúli er einnig lokaður, vegna snjóflóðahættu.

Hálka er á Hellisheiði og á Sandskeiði. Óveður er á Kjalarnesi. Hálka eða hálkublettir er nokkuð víða á Suðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir. Snjóþekja og óveður er á Bröttubrekku en hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði.  Ófært er í Svínadal og  stórhríð.

Á Vestfjörðum er ófært og stórhríð á flest öllum leiðum þó er þæfingsfærð  og óveður á nokkrum leiðum á láglendi. Snjóþekja og stórhríð er á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Hálkublettir, éljagangur og skafrenningur er í Húnavatnssýslum en snjóþekja og snjókoma í Skagafirði. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli, á Siglufjarðarvegi og í Héðinsfirði.

Á Norðurlandi eystra eru ófært og stórhríð á flestum leiðum austan Eyjafjarðar. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheið og þungfært í Öxnadal. Lokað er um Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu.

Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er snjóþekja á Fljótsdalshéraði. Hálka og skafrenningur er á Fagradal og á Oddsskarði. Ófært er á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra. Greiðfært er frá Breiðdalsvík og með suðurströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×