Innlent

Enn slæmt veður víðast hvar

Gissur Sigurðsson skrifar
Mynd/Róbert Reynisson
Allir helstu vegir á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austurlandi eru ófærir eftir hvassviðri, snjókomu og skafrenning í nótt og óvíst hvenær mokstur getur hafist vegna illviðris, sem stendur enn.

Enginn bíll fór framhjá teljurum Vegagerðarinnar frá miðnætti og til klukkan sex í morgun á nær öllum þessum leiðum.

Ekki  er vitað um að ökumenn sitji nokkurstaðar fastir í bílum sínum eins og í fyrrinótt og björgunarsveitir hafa ekki verið kallaðar út vegna vandræða, enda hélt fólk sig heima, að sögn lögreglumanna, sem voru á vakt í nótt.

Töluvert snjóaði um allt norðanvert landið í nótt og áfram er spáð stormi um norðanvert landið í dag, eða 18 til 23 metrum á sekúndu af norðaustri, og enn meiri snjókomu.

Mun hæggari vindur verður um sunnanvert landið og lítil úrkoma, en vindur getur þó farið upp í 20 metra á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×