Innlent

Dregur smám saman úr vindi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Í  kvöld og nótt kemur áfram til með að ganga á með dimmum éljum á fjallvegum um vestanvert landið, á Hellisheiði og Holtavörðuheiði, en smámsaman dregur þó úr vindi. Kólnar heldur í kvöld og vestantil er hætt við ísingu og hálku á láglendi til morguns.

Þá kólnar á láglendi í kvöld og myndast ísing á vegum suðvestan- og vestanlands.

Stormviðvörun er enn í gildi á hálendinu.

Færð og aðstæður

Hálka er á Hellisheiði en hálkublettir á Mosfellsheiði og sumsstaðar á útvegum á Suðurlandi þótt þar sé víðast greiðfært.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi. Á Holtavörðuheiði er snjóþekja, hvassviðri og skafrenningur.

Á Vestfjörðum er mikið autt á láglendi en víða nokkur hálka eða snjóþekja og skafrenningur á  fjallvegum. Vegurinn norður á Árneshrepp er þungfær.

Á Norðurlandi eru flestir vegir greiðfærir. Þó er snjóþekja og skafrenningur á Þverárfjalli en hálkublettir m.a. á Vatnsskarði, Öxnadalsheiði og Víkurskarði.

Opið er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi  og um Vopnafjarðarheiði en þar eru hálkublettir og snjóþekja. Vegir á Austurlandi eru annars greiðfærir.

Vegir eru auðir á Suðausturlandi en sandfok er í Hvalnesi.

Akstursbann á hálendinu

Meðan frost er að fara úr jörð þarf víða að banna allan akstur á hálendinu til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru. Þeir sem hyggja á fjallaferðir eru beðnir að kynna sér ástand á viðkomandi leiðum og virða akstursbann þar sem það er í gildi. Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×