Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gengu formlega frá myndun meirihluta í Skagafirði í gærkvöldi. Vefsíðan feykir.is greinir frá þessu.
Skrifað var undir samkomulag um meirihlutamyndun flokkanna tveggja í fyrrakvöld, sem samþykkt var í trúnaðarráðum flokkanna í gærkvöldi.
Eins og kunnugt er hlutu framsóknarmenn hreinan meirihluta í Skagafirði, eða fimm sveitarstjórnarfulltrúa af níu, en sjálfsæðismenn fengu tvo fulltrúa.
„Við vorum búin að velta þessu mikið og niðurstaðan varð að gera þetta á breiðari grunni, enda töldum við það þjóna hagsmunum sveitarfélagsins betur. Við erum jú kjörin til að þjóna hagsmunum sveitarfélagsins og íbúa þess og teljum það best gert á þennan hátt,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins í Skagafirði í samtali við Feyki.
B- og D-listi mynda meirihluta í Skagafirði
Randver Kári Randversson skrifar
