Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands er ekki að vænta mikils bjartviðris á landinu um verslunarmannahelgina. Vestfirðir er eini landshlutinn sem gert er ráð fyrir að muni sleppa við rigningu yfir alla helgina.
Á föstudag er gert ráð fyrir norðaustan 3-8m/s og dálitlum skúrum víðast hvar, en rigningu syðst á landinu. Hiti 8 til 13 stig. Sama verður uppi á teningnum á laugardag, áframhaldandi norðaustanátt og skúrir, nema hvað hiti gæti þá farið upp í 15 stig.
Á sunnudag verður norðlæg átt, skýjað með köflum og úrkomulítið, en hvassara og rigning á austanverðu landinu. Hiti verður áfram um 8-15 stig. Á mánudag, frídag verslunarmanna, er útlit fyrir rigningu sunnan til á landinu, en lítilli úrkomu annars staðar. Hiti breytist lítið.
Vestfirðir sleppa við rigningu um verslunarmannahelgina
Randver Kári Randversson skrifar
