Golf

Samningslaus landsliðsmaður vann golfmót

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eggert í leik með íslenska landsliðinu
Eggert í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Vilhelm
Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, vann opna Brimbergsmótið í golfi sem fór fram á Seyðisfirði um helgina. Þetta gerði Eggert þrátt fyrir að samningi hans við portúgalska félagið Belenenses hafi verið rift fyrr um helgina.

Eggert Gunnþór gekk ásamt Helga Val Daníelssyni til liðs við Belenenses síðasta sumar eftir misheppnaða dvöl hjá Wolves í Englandi. Eggert lék hinsvegar  aðeins ellefu leiki fyrir portúgalska liðið vegna meiðsla.

Eggert hefur átt erfitt uppdráttar eftir að hafa farið frá Hearts í Skotlandi. Hefur hann aðeins leikið 19 leiki á undanförnum tveimur árum en hann hefur glímt við meiðsli í nára.

Eggert Gunnþór fékk 44 punkta en hann lék völlinn á pari, 70 höggum. Honum gekk sérstaklega vel seinni hringinn þar sem hann fékk örn á 11. og 12. braut samkvæmt frétt Austurfrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×