Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, er mjög snjöll í leiknum Candy Crush. „Já, ég er komin í borð 530,“ segir hún glöð í bragði og heldur áfram:
„Ég er mikil skákdrottning og ég spila Candy Crush svolítið eins og skák. Það er nefnilega mikil hugsun á bakvið þennan leik og maður þarf að beita ákveðinni kænsku til að ná langt.“
Vigdís er svo góð að margir sem spila Candy Crush hafa séð nafn hennar á listum yfir þá sem ná flestum stigum í ákveðnum borðum í leiknum. Þegar spilarar í leiknum ljúka við tiltekin borð sjá þeir hvaða vinir þeirra á Facebook eru bestir í leiknum. Meðfylgjandi mynd er skjáskot frá Facebook-vini Vigdísar og þar sést hvernig hún trónir á toppnum.
Spilar leikinn ekki í þingsal
Vigdís segist grípa í Candy Crush yfir daginn. „Já, það er ágætt að grípa í þetta, til dæmis þegar maður er að hlusta á fólk,“ útskýrir hún en bætir við að hún spili leikinn aldrei inni í þingsal.
„Fyrst og fremst er þessi leikur frábær leið til þess að skerpa á rökhugsuninni,“ bætir þingkonan við.
Vigdís er langt komin með að klára Candy Crush, því í leiknum eru 680 borð. Hægt er að bæta við borðum með því að kaupa svokallaða Dream World viðbót, en þá bætast 410 borð við.
Leikurinn var fyrst gefinn út í apríl 2012 og kom út fyrir snjallsíma í september sama ár. Milljónir manns spila leikinn reglulega. Fyrsta árið sem leikurinn var á markaði var hann sóttur af tíu milljón manns. Árið 2013 voru 6,7 milljónir sem spiluðu leikinn reglulega. Leikurinn hefur fengið góða dóma frá gagnrýnendum.
