Golf

Tvöfaldur sigur hjá Horschel - Fær 1,3 milljarð í verðlaunafé

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Billy Horschel hefur verið frábær á síðustu vikum.
Billy Horschel hefur verið frábær á síðustu vikum. Vísir/Getty Images
Bandaríkjamaðurinn Billy Horschel er 1,3 milljörðum króna ríkari eftir sigur sinn á Tour Championship mótinu sem lauk í kvöld á PGA-mótaröðinni. Með sigrinum í kvöld þá tryggði Horschel sér einnig sigur í FedEx-bikarnum og fékk fyrir það um tíu milljónir dala.

Horschel lék samtals á 11 höggum undir pari og varð þremur höggum betri en Jim Furyk og Rory McIlroy frá N-Írlandi sem deildu öðru sætinu. McIlroy var jafn Horschel fyrir lokahringinn en fann ekki taktinn í dag. Furyk var sá kylfingur sem sótti helst að Horschel en gaf eftir á lokaholunum.

Fáir áttu von á því að Horschel myndi bera sigur úr býtum í keppninni um FedEx-bikarinn en Horschel hafði ekki átt gott tímabil þegar úrslitakeppnin hófst. Segja má að Horschel hafi toppað á hárréttum tíma en hann sigraði einnig í BMW Championship mótinu sem fram fór fyrir viku.

Að auki varð Horschel í öðru sæti í Deutsche Bank mótinu sem var annað mótið af fjórum í FedEx-úrslitakeppninni. Frábær frammistaða hjá hinum 27 ára gamla Horschel sem á von á sínu fyrsta barni eftir nokkra daga. 

Chris Kirk, Jason Day og Justin Rose deildu fjórða sætinu á samtals sjö höggum undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×