Innlent

Spá óveðri víða um land næstu daga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Talsverður lægðagangur er nú á Norður Atlantshafi og næstu þrjá sólahringa koma upp að suðvesturströndinni þrjár krappar lægðir. Þeim fylgir sunnan og suðaustan stormur og talsverð eða mikil rigning um sunnan og vestanvert landið. Veðurstofan hefur sent frá sér viðvörun þessa efnis.

Á morgun, mánudag er spáð suðaustan 18-25 m/s á Suðurlandi, Faxaflóa og Breiðafirði. Það hvessir í nótt en veðurhæðin nær hámarki í fyrramálið og fram yfir hádegi. Spáð er suðaustan 15-23 m/s annars staðar á landinu á morgun, um og upp úr hádegi hvessir á Vestfjörðum og Suðausturlandi og síðdegis á norðaustanverðu landinu og á Austfjörðum. Talsverð úrkoma fylgir storminum  og mikil úrkoma er líkleg suðaustanlands.

Spáin fyrir þriðjudag og miðvikudag er eftirfarandi:

Á þriðjudag : Sunnan og suðaustan 15-23 m/s. Hvassast á Vesturlandi. Rigning, talsverð SA-lands en heldur hægari og rigning með köflum NA-til. Hiti 5 til 10 stig.

Á miðvikudag: Suðvestan 15-23 m/s og skúrir eða rigning en sunnan 10-15 m/s og úrkomulítið á Norður og Austurlandi. Hiti 5 til 9 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×