Mannleg mistök urðu til þess að mokstur í Kópavogsbæ hófst ekki fyrr en klukkan hálf átta í morgun. Í yfirlýsingu frá bænum segir að ekki hafi verið brugðist rétt við aðstæðum í bænum í nótt og verða verklagsreglur í tengslum við mokstur gatna og söltun því yfirfarnar hjá Kópavogsbæ.
Fjöldi bílstjóra lenti í vandræðum í umferðinni í morgun og nokkuð var um árekstra vegna hálku á götum bæjarins. Dæmi voru um að fólk hafi verið í um tvær klukkustundir að komast leiðar sinnar víða í bæjarfélaginu.
Að sögn Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, almannatengils Kópavogsbæjar, er nú unnið að mokstri á stofnbrautum og í brekkum en mokstur í íbúðagötum hefst síðar í dag.
