Innlent

Varað við stormi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Suðaustan stormur eða rok, 20-28 metrar á sekúndu, gengur yfir landið annað kvöld og nótt. Fyrst suðvestan- og vestanlands með snjókomu eða slyddu. Snýst síðan í mun hægari suðvestanátt með éljum, fyrst suðvestan til aðra nótt, en norðaustan til á þriðjudagsmorgun. Búast má við miklum vindhviðum við fjöll, 40-45 metrum á sekúndu. Þessu fylgir talsverð úrkoma sunnan- og vestanlands og jafnvel mikil suðaustanlands.

Þá varar Vegagerðin við hálku á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða snjóþekja er víða á Suðurlandi, raunar þæfingur á fáeinum útvegum. Nokkur hálka er á stofnbrautum á Höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Hálka og snjóþekja er á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar og þungfært er úr Bjarnarfirði norður í Reykjarfjörð. Á Norðurlandi er víðast ýmist hálka eða snjóþekja en þæfingur er á Hólasandi og Dettifossvegi. Víða er nokkur ofankoma, einkum austan til.

Hálkublettir, hálka eða snjóþekja er á flestum vegum bæði á Austur- og Suðausturlandi. Þæfingsfærð er á Öxi en Breiðdalsheiði er ófær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×