Innlent

Ekkert ferðaveður austanlands á sunnudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Búast má við því að skyggni verði nær ekkert og að færð spillist á skömmum tíma
Búast má við því að skyggni verði nær ekkert og að færð spillist á skömmum tíma Vísir/Auðunn
Ekkert ferðaveður verður austanlands á sunnudag en þar er spáð ofsaveðri. Meðalvindur verður 23-32 metrar á sekúndu en hviður gætu farið upp í allt að 50 metra á sekúndu.

Í spá Veðurstofunnar segir að þar sem vindáttin standi af norðri megi reikna með því að vindhviðurnar verði hvað sterkastar á sunnanverðum Austfjörðum og Suðausturlandi.

Þá mun snjóa talsvert. Búast má við því að skyggni verði nær ekkert og að færð spillist á skömmum tíma.

Veðurhorfur til klukkan 18 á sunnudag:

Suðlæg eða breytileg átt, yfirleitt á bilinu 8-15 metrar á sekúndu. Snjókoma með köflum eða él í flestum landshlutum. Gengur í norðaustan með 18-23 metrum á sekúndu með snjókomu í kvöld á Vestfjörðum og annesjum nyrst.

Hvessir um allt land í nótt. Norðan og norðvestan átt á morgun, 15-23 metrar á sekúndu, en 23-32 metrar á sekúndu austanlands. Talsverð snjókoma og skafrenningur á Norður- og Austurlandi.

Stöku él sunnan og vestan til, en talsverður skafrenningur einnig á þeim slóðum. Dregur heldur úr vindi vestan til seint á morgun. Frost 0 til 8 stig, en frostlaust syðst í fyrstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×