Innlent

Nokkuð um vatnsleka á höfuðborgarsvæðinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mjög mikil hálka er á höfuðborgarsvæðinu og er um að gera að fara varlega.
Mjög mikil hálka er á höfuðborgarsvæðinu og er um að gera að fara varlega. Vísir/Stefán
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur farið í sjö útköll það sem af er degi vegna leka en mikil hláka er nú á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er mest í íbúðum í kjöllurum. Svo höfum við farið í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, þar kom lak í gegnum þak og svo fórum við í verslunarhúsnæði í Skeifunni,“ segir Þórður Bogason, varðstjóri hjá slökkviliðinu.

Hann segir að það sé nokkuð mikið maus að komast að niðurföllum þar sem mikill klaki sé víða.

„Við erum búnir að vera að brjóta klaka og salta svo hægt sé að beina vatninu í einhvern farveg,“ segir Þórður.

Að sögn Ólafs Ragnars Ingimarssonar, læknis á  göngu-og bráðadeild Landspítalans, hefur ekki verið meira um hálkuslys en vanalega, þrátt fyrir að flughált sé nú á höfuðborgarsvæðinu.

„Mér sýnist fólk gera sér grein fyrir hvað það er launhált og passar. Í það minnsta lítur það þannig út til þessa,“ segir Ólafur. Hann hvetur fólk til að fara áfram varlega; það sé mikil hálka auk þess sem vatn sé víða yfir ís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×