Jólin eru (í) Ekkisens nefnist jólasýning í listarýminu Ekkisens á Bergstaðastræti 25B en þar verður haldin stór samsýning á myndlist ungra listamanna og annarri snilld dagana 13. til 22. desember. Slagorð sýningarinnar er „Njótum myndlistar um jólin!“
Í tilkynningu frá Ekkisens segir að jólasýningar myndlistarmanna séu orðnar að árlegum viðburði sem rétt eins og jólabókaflóðið boði komu jólanna. Þá sé orðið löngu tímabært að myndlist öðlist stærri sess í jólagjöfum Íslendinga og deili honum til jafns við bókmenntirnar.
Sýningin verður opnuð klukkan 14 í dag og verður opin frá klukkan 14 til 18 í dag og á morgun. Nánari opnunartímar verða auglýstir síðar.
