Innlent

Fastur á Kleifaheiði í óveðri í sex tíma og sér fram á að vera þar í nótt

Birgir Olgeirsson skrifar
Páll segist eiga eftir tæpt strik á olíugeyminum og að kyndingin hafi ekki svikið hann enn.
Páll segist eiga eftir tæpt strik á olíugeyminum og að kyndingin hafi ekki svikið hann enn.
„Ég hef það gott bara,“ segir bílstjórinn Páll Ágúst Sigurðarson sem hefur setið fastur á Kleifaheiði á sunnanverðum Vestfjörðum í sex tíma, eða frá ellefta tímanum í morgun. Páll var á leið með fisk frá Rifi á Snæfellsnesi til vinnslu á Tálknafirði. Hann lagði af stað klukkan fjögur í nótt og hafði ekið tæpa fjögur hundruð kílómetra þegar hann festist á leiðinni niður af Kleifaheiði.

„Þetta var grátlega lítið eftir, segir Páll Ágúst sem sér fram á að hafast við í vöruflutningabílnum í nótt. Reynt var að ná í Pál á veghefli fyrr í dag en sá lenti í vandræðum og því ekki unnt að sækja hann.

Hér má sjá leiðina sem Páll þurfti að fara frá Rifi á Snæfellsnesi til Tálknafjarðar. Hann situr nú fastur á Kleifaheiði og sér fram á að vera þar í nótt í brjáluðu veðri.map.is
„Ég gat ekki séð hann“

„Hann reyndi að koma á heflinum á áðan. Það borgaði sig ekkert. Við vorum hérna mjög stutt frá hvor öðrum en ég gat ekki séð hann. Ég held að hann hafi lent í vandræðum sjálfur að komast niður,“ segir Páll Ágúst sem segir ekkert skyggni á heiðinni ennþá fyrir nokkurn til að losa vöruflutningabílinn. „Skyggnið leyfir engar aðgerðir,“ segir Páll Ágúst.

Hann á því ekki von á öðru en að dvelja í bílnum yfir nóttina í kolvitlausu veðri uppi á Kleifaheiði. Búist er við stormi á Vestfjörðum í nótt og á morgun.

Mun ekki svelta í hel

„Ég sé ekkert annað í stöðunni. Ég held að það sé ekki vit í því fyrir neinn að vera að þvælast hérna,“ segir Páll Ágúst sem telur sig engri hættu. „Ég er hérna í lokuðu rými og á ennþá eftir tæpt eitt strik á olíutankinum. Fíringin hefur ekki verið að svíkja mig. Ég keyri hana á lágmarkshita. Hún á nú að duga helvíti lengi. Ég þarf að setja hana í gang annað slagið af því að hún notar af rafgeymunum olíufíringin svo maður verður ekki rafmagnslaus. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ segir Páll Ágúst.

Hann segist eiga eftir rest af nesti og hefur ekki áhyggjur af matarskorti. „Það þarf svo sem ekkert alltaf að vera að troða í sig. Ég mun ekki svelta í hel þó að ég fái ekki eitthvað að borða. Ég er alveg vel haldinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×