Innlent

Heppilegra ef Hanna Birna hefði gert hreint fyrir sínum dyrum

Atli Ísleifsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir tekur aftur sæti á Alþingi á morgun.
Hanna Birna Kristjánsdóttir tekur aftur sæti á Alþingi á morgun. Vísir/Daníel/Valli
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að það hefði verið heppilegra ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hefði komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins til að ræða framgöngu sína í lekamálinu svokallaða áður en hún tæki aftur sæti á þingi.

Helgi sagði þetta í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 fyrr í dag. „Hún verður að vega það og meta hvernig hún telur sína stöðu vera gagnvart þeim sem hana kusu. Það er auðvitað bara það sem hún þarf að gera upp við þá sem hún situr í umboði fyrir.“

Hanna Birna mun aftur taka sæti á Alþingi á morgun, en hún sagði af sér sem ráðherra 21. nóvember síðastliðinn.

Helgi segir það vera hluti af þessu máli sem hafi aldrei verið kláraður. „Það er kannski óþægilegt að hún skuli ekki hafa lokið því áður en hún tekur þessa ákvörðun. Hún bara afþakkaði boð um að koma og ræða málin á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er sem ólokið í þessu er framkoma hennar eða samskipti við Alþingi sem ráðherra.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist lítast vel á það að Hanna Birna snúi aftur á þing. „Hún er kjörinn þingmaður og á að mæta í vinnuna.“

Brynjar segist halda að það að almennt ríki friður um endurkomu Hönnu Birnu innan Sjálfstæðisflokksins. „Ég hef reyndar ekki kannað það. Auðvitað getur verið að fólk hafi mismunandi skoðanir á því hvað sé best að gera og hvað sé skynsamlegast fyrir hana að gera og svo framvegis. Það er bara eins og gengur og gerist.“

Umboðsmaður Alþingis kynnti niðurstöðu á frumkvæðisathugun sinni á samskiptum Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í janúar síðastliðinn. Var það mat umboðsmanns að samskipti Hönnu Birnu við Stefán, á meðan lögreglan rannsakaði ráðuneytið, hefðu verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×