Fótbolti

Ribery íhugar að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Franck Ribery, leikmaður Bayern München og franska landsliðsins, íhugar nú að leggja skóna á hilluna aðeins 32 ára gamall vegna þrálátra meiðsla.

Franska blaðið L'Equipe greinir frá því að tíð meiðsli kappans hafi gert það að verkum að hann skoði sína stöðu gaumgæfilega.

Karl-Heinz Rummenigge, forseti Bayern, hefur gefið í skyn að Ribery geti náð fullri heilsu á nýjan leik en af 272 síðustu deildarleikjum Bayern hefur Ribery misst af 79 þeirra.

„Franck hefur þurft að stíga til hliðar of oft á síðustu tímabilum. Við hefðum þurft að stóla á hann í lengri tíma en við höfum fengið,“ sagði hann.

Síðan að Pep Guardiola tók við Bayern hefur Ribery misst af 55 prósent leikja liðsins. En þrátt fyrir það segir umboðsmaður kappans að Ribery muni ekki gefast upp.

„Hann er að gera allt sem hann getur til að komast aftur af stað og hann vill að ferill sinn endi á góðan hátt, ekki á þennan,“ sagði umboðsmaður Ribery.

Ribery hefur áður tjáð sig um meiðslin og segir að þau hafi líka hamlað sér í daglegu lífi. „Ég hef ekki getað gert það sem ég vil gera í fríunum mínum. Ég á allt sem maður getur látið sig dreyma um en samt er ég ekki frjáls. Ég er aðeins að hugsa um fótinn minn. Ég vil hlaupa og ég get það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×