Það er fátt um fína drætti inni á vef Veðurstofu Íslands þegar horft er nokkra daga fram í tímann. Besta veðrið næstu daga verður annað kvöld á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið um klukkan 21 á þriðjudagskvöldi þegar spáir 13 stiga hita og heiðskíru veðri. Eftir það má búast við svölu veðri og skúrum um land allt, miðað við árstíma.
Í dag má búast við norðan- og norðaustanátt 5 – 13 metrum á sekúndu, en heldur hægari norðaustan til. Skýjað og rigning með köflum sunnan- og suðaustanlands en víða bjart vestan til. Úrkomulítið í kvöld en fer að rigna norðan og austan á morgun, annars bjart með köflum. Hiti víða 5 til 16 stig, hlýjast fyrir sunnan.
Á fimmtudag er búist við norðlægri eða breytilegri átt, 3 – 10 metrum á sekúndu. Bjartviðri um landið sunnan og vestanvert og líkur á síðdegisskúrum en skýjað og rigning með köflum annars staðar. Hiti 5 til 15 stig, svalast austan til.
Á föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag:
Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og skúrir um allt land, síst þó norðvestan til. Hiti 6 – 14 stig, hlýjast syðst.
Þegar litið er á langtímaspá norsku veðurstofunnar þá verða Íslendingar einfaldlega að vona að „sumarið“ komi í ágúst. Þess ber þó að geta að langtímaspár eru ekki þær áreiðanlegustu.

