Fótbolti

Wolfsburg fær Draxler til að fylla í skarð De Bruyne

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Julian Draxler í leik með Schalke á dögunum.
Julian Draxler í leik með Schalke á dögunum. Vísir/Getty
Wolfsburg gekk í dag frá kaupunum á þýska kantmanninum Julian Draxler frá Schalke 04 en honum er ætlað að fylla í það skarð sem Kevin De Bruyne, nýjasti liðsmaður Manchester City, skyldi eftir sig.

Samkvæmt þýska blaðinu Bild greiðir Wolfsburg alls 36 milljónir evra fyrir hinn 21 árs gamla Draxler sem hefur undanfarin ár verið orðaður við mörg af stærstu liðum Evrópu. Hefur hann þrátt fyrir ungan aldur þegar leikið 118 leiki fyrir Schalke og 15 leiki fyrir þýska landsliðið.

Er honum ætlað að fylla í skarð belgíska kantmannsins De Bruyne sem gekk á dögunum til liðs við Manchester City fyrir 54 milljónir evra. Náði félagið öðru sæti í þýsku úrvalsdeildinni ásamt því að verða í fyrsta sinn í sögu félagsins bikarmeistarar með De Bruyne fremstan í flokki.

Er nóg til af seðlum hjá félaginu eftir söluna á De Bruyne og króatíska sóknarmanninum Ivan Perisic sem gekk í morgun til liðs við Inter fyrir 20 milljónir evra.

Hefur félagið selt leikmenn fyrir alls 95 milljónir evra undanfarna þrjá daga og átti því í engum erfiðleikum með að greiða 36 milljónir punda fyrir einn efnilegasta leikmann Þýskalands.

Þá staðfesti félagið í dag að gengið hefði verið frá kaupunum á brasilíska miðverðinum Dante frá Bayern Munchen. Gengur Dante til liðs við Wolfsburg eftir þrjú ár hjá Bayern Munchen þar sem hann varð í þrígang þýskur meistari ásamt því að verða tvisvar bikarmeistari og vinna Meistaradeild Evrópu í eitt skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×