Innlent

Neyðarsöfnun UNICEF: Rúmar átta milljónir hafa safnast fyrir börn frá Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
"Börn geta ekki beðið og veturinn nálgast hratt,“ segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi.
"Börn geta ekki beðið og veturinn nálgast hratt,“ segir í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi. Vísir/AFP
Yfir átta milljónir króna hafa safnast á tveimur vikum í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi. Upphæðin bætist við þær 35 milljónir króna sem safnast hafa frá því að UNICEF á Íslandi hóf fyrstu neyðarsöfnun sína vegna stríðsátakanna í Sýrlandi, haustið 2012.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir starfsmenn UNICEF innilega þakklátir öllum þeim fjölmörgu sem hafa lagt sitt af mörkum vegna þeirra hörmunga sem börn frá Sýrlandi hafa upplifað. „Sú umræða og þær aðgerðir sem hafa farið af stað í þjóðfélaginu undanfarið eru líka af hinu góða. Við fögnum því einlæglega að fólk vilji hjálpa börnum og fólki á flótta,“ segir Bergsteinn.

Framlögin í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fara í einar umfangmestu neyðaraðgerðir samtakanna frá upphafi: Baráttu UNICEF innanlands í Sýrlandi og í öllum nágrannaríkjunum – Líbanon, Tyrklandi, Jórdaníu og Írak.

Börn leita alþjóðlegrar verndar

Í tilkynningu segir að UNICEF fagni auknum skuldbindingum Evrópuleiðtoga um að styðja flóttafólk og fólk í leit að betra lífi en leggur áherslu á að skuldbindingunum þurfi að fylgja eftir með tafarlausum aðgerðum allra aðildarríkja Evrópusambandsins til að vernda börn á flótta. Meira en fjórðungur flóttafólks sem nú komi til Evrópu séu börn.

„Börn geta ekki beðið og veturinn nálgast hratt. Þeim mun lengur sem börn eru án aðstoðar og verndar, án þess að hafa skjól yfir höfuðið eða aðgang að heilsugæslu og sálrænum stuðningi, þeim mun meiri er hættan á að börn látist vegna lungnabólgu eða verði fyrir varanlegum skaða,“ segir Bergsteinn.

Nánar má fræðast um söfnunina á heimasíðu UNICEF.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×