Innlent

Framsóknarmaður fjarri fjárlagaumræðu til að elta fé

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson vísir/vilhelm
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ekki á þingfundi sem stendur þar sem hann er staddur í leitum í Grýtubakkahreppi. Höskuldur birtir mynd af sér á Facebook-síðu sinni þess efnis. Á sama tíma standa yfir umræður í þinginu um fjárlög.

Þeir þingmenn sem skráðir eru á fjarvistarlista þingsins eru Róbert Marshall og Ögmundur Jónasson. Á fjarvistarskrána eru þeir þingmenn skráðir sem munu engan þátt taka í þingfundum sem fram fara þann daginn.

„Ég vissi af því gær að hann væri á leið í leitir en ég þekki ekki ástæður þess að hann er ekki á fjarvistarskránni,“ segir Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður Framsóknarflokksins

„Menn skrá sig á fjarvistarskrána ef það er fyrirséð að þeir muni ekki mæta á þingfundinn þann daginn,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við Vísi. Hann segir að það sé ekki síst til þess að aðrir þingmenn geti séð hvort viðkomandi verður á fundinum þann daginn.

„Það er í eðli starfsins, þingmennskunnar, að það fer ekki eingöngu fram inn í þingsalnum. Menn geta verið á þingfundi eða nefndafundi fyrir hádegi en þurft að mæta á annan fund annars staðar eftir hádegi. Síðan verða þingmenn að meta sjálfir hvaða fundir ganga fyrir.“

Aðspurður segir Helgi að það séu engin viðurlög við því að skrá ekki fjarvist. „Þingmenn verða að eiga það við sína samvisku. Við fylgjumst ekki sérstaklega með því en komum oft á framfæri ábendingum þegar við vitum um fyrirhugða fjarvist, til að mynda utanlandsför.“

Ekki náðist í Höskuld við vinnslu fréttarinnar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×