Enski boltinn

Schürrle: Mourinho treysti mér ekki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
André Schürrle fór heim til Þýskalands.
André Schürrle fór heim til Þýskalands. vísir/getty
Þýski landsliðsmaðurinn André Schürrle, sem yfirgaf Chelsea í janúarlugganum og gekk í raðir Wolfsburg, segist hafa þurft að fara þar sem hann fann ekki fyrir trausti hjá José Mourinho.

Schürrle kom til Chelsea frá Bayer Leverkusen og skoraði átta mörk í 30 leikjum í úrvalsdeildinni á fyrra tímabili sínu og var búinn að skora þrjú mörk í fjórtán leikum á síðustu leiktíð áður en hann fór.

„Ég átti góða daga hjá Chelsea og liðsfélagarnir tóku mér vel. Því er erfitt að útskýra hvers vegna ég fór,“ segir Þjóðverjinn í viðtali við The Times.

„Ég spilaði líka vel, en þar kom sá tímapunktur á seinni leiktíðinni þar sem ég fann ekki fyrir trausti hjá knattspyrnustjóranum. Ég spilaði svo ekki marga leiki sem byrjunarliðsmaður.“

„Ég veit ekki hvers vegna Mourinho treysti mér ekki. Mér fannst það skrítið. Ég byrjaði nokkra leiki, var svo á bekknum nokkrum sinnum og var svo aftur kominn í byrjunarliðið.“

„Ég fékk engan stöðugleika frá stjóranum þannig það var erfitt að spila minn besta fótbolta. Það er líklega stærsta ástæða þess að ég vildi fara,“ segir André Schürrle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×