Innlent

Fimmtíu hælisleitendum komið fyrir á Bæjarhrauni í Hafnarfirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Bæjarhraun í Hafnarfirði þar sem hælisleitendum hefur verið komið fyrir.
Bæjarhraun í Hafnarfirði þar sem hælisleitendum hefur verið komið fyrir. vísir/stefán
Um miðjan ágúst var tekið í notkun á Bæjarhrauni í Hafnarfirði nýtt búsetuúrræði fyrir hælisleitendur hér á landi. Þar búa nú um 50 einstaklingar. Er þetta þriðja búsetuúrræðið sem Útlendingastofnun hefur úr að spila í dag.

Viðræður eru hafnar milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Útlendingastofnunar um viðlíka samning um aðstoð við hælisleitendur og stofnunin hefur gert bæði við Reykjanesbæ og Reykjavík. Málið var tekið fyrir á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar á föstudag.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar
„Útlendingastofnun mætti á fundinn til okkar og leitaðist eftir því að Hafnarfjarðarbær myndi gera samning um þjónustu við tiltekinn fjölda fjölskyldna um félagsaðstoð og menntun,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar. Tekið hafi verið vel í málaleitanina.

Árið verður metár í fjölda hælis­umsókna og því hefur Útlendingastofnun þurft að leita að hentugu húsnæði til þess að hýsa fólk. Fjöldi staða hefur verið skoðaður í því ljósi, til dæmis St. Jósefsspítali í Hafnarfirði sem stendur auður og hefur gert í mörg ár.

Skúli Á. Sigurðsson, lögfræðingur Útlendingastofnunar, segir fólk af ýmsum þjóðernum búa nú þegar í Hafnarfirði. „Eins og er búa þarna um 50 hælisleitendur. þar á meðal eru um tíu fjölskyldur með börn sem búa á hæð ásamt einstæðum konum. Á annarri hæð eru einhleypir karlmenn og ekki er gengt milli hæðanna,“ segir Skúli. Fólkið sé héðan og þaðan úr heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×