Fótbolti

Tuchel gerði betur en Klopp og vann gömlu lærisveinana í fyrstu tilraun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marco Reus fagnar marki sínu með Aubameyang og Shinji Kagawa.
Marco Reus fagnar marki sínu með Aubameyang og Shinji Kagawa. vísir/getty
Dortmund komst aftur á sigurbraut í þýsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Mainz, 2-0, á útivelli í fyrsta leik níundu umferðar deildarinnar.

Marco Reus, sem hefur farið á kostum á tímabilinu, kom gestunum frá Dortmund yfir á 18. mínútu, 1-0, og Armeninn Henrik Mkhitaryan tvöfaldaði forskotið átta mínútum fyrir leikslok. Loaktölur, 2-0.

Thomas Tuchel, þjálfari Dortmund, var að mæta sínum gömlu lærisveinum, en hann stýrði liðinu frá 2009-2014 áður en hann sagði starfi sínu lausu fyrir síðasta tímabil. Hann þjálfaði ekkert á síðustu leiktíð en tók svo við starfinu af Jürgen Klopp í sumar.

Tuchel, líkt og Klopp, er dýrkaður og dáður hjá Mainz, en hann gerði betur en forveri sinn Klopp með því að vinna Mainz í fyrstu tilraun.

Eftir að Klopp yfirgaf Mainz og tók við Dortmund gerði hann markalaust jafntefli við gömlu lærisveinana í fyrstu tilraun tímabilið 2009-2010 þegar liðið var komið aftur upp í efstu deild.

Dortmund er sem fyrr í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar með 20 stig, fjórum stigum á eftir meisturum Bayern München sem eiga þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×