Innlent

Bjarni skoðar að gefa landsmönnum hlut til að tryggja sátt um eignarhald bankanna

Heimir Már Pétursson skrifar
„Það þarf enginn að flýta sér neitt,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.
„Það þarf enginn að flýta sér neitt,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.
Formaður sjálfstæðisflokksins segist vilja tryggja sátt í þjóðfélaginu um breytt eignarhald á bönkunum þegar ríkið láti af sínum eignarhlut. Hluti af bönkunum sem í raun sé þegar í eigu almennings verði færður honum í formi hlutafjár. Hins vegar verði farið varlega í sakirnar í ljósi reynslunnar.

Í setningarræðu sinni á landsfundi sjálfstæðisflokksins á föstudag varpaði Bjarni Benediktsson formaður flokksins og fjármálaráðherra fram þeirri hugmynd að um 5 prósenta hlutur ríkisins í bönkunum yrði einfaldlega færður þjóðinni í formi hlutabréfa. Það myndi þýða að hver og einn Íslendingur gæti eignast hlutabréf í bönkunum upp á um 90 þúsund krónur.

Vill dreift eignarhald

„Það sem ég er að stefn að er að tryggja góða sátt um breytt eignarhald þegar ríkið lætur af sínum eignarhlut og eins líka að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum og undirbúa þá vel fyrir skráningu,“ segir hann.

„Það gæti komið vel til greina að taka tiltekin hlut ríkisins – sem er í raun og veru  hvort eð er í eigu landsmanna með því að ríkið sé skráð fyrir honum – og afhenda hann heimilunum, segjum 5 prósent í banka. Þar með ertu kominn með dreift eignarhald og þar með alla sem þátttakendur í skráningunni.“

Þar með sé einnig kominn grunnur að því að draga úr beinni eignaraðild ríkisins að bönkunum. Þetta komi vel til greina til að tryggja sátt um dreift eignarhald á bönkunum.

„Þetta er almenn hugmynd. Ég tel að hún gæti komið til greina í einum banka, eða jafnvel fleirum. Það þarf að vinna með þessa hugmynd og það þarf að skoða líka hvenær gott sé að skrá banka yfir höfuð. Þetta tengist því að bankinn verði skráður,“ segir Bjarni.

„Ég hef líka nefnt það að það gæti þurft að setja takmarkanir á framsalsheimildir vegna þessara hluta. Það þurfum við að meta miðað við eftirspurnina í hagkerfinu á þeim tíma.“

Flýta sér hægt

Fyrri einkavæðing bankanna hefur verið mjög gagnrýnd og margir telja hana hafa misheppnast algerlega, ekki hvað síst í ljósi þess sem síðar gerðist með hruni þeirra í október árið 2008.

„Það þarf enginn að flýta sér neitt, einmitt vegna þess að margir eru tortryggnir og velta því fyrir sér hvort það sé einhver hætta á að mistök verði gerð. Þá er um að gera að opna umræðuna og fá fram öll þessi sjónarmið,“ segir hann. „Við ætlum að tryggja gegnsæi, við ætlum að tryggja það að farið verði fram af varkárni og við ætlum að flýta okkur hægt í þessum efnum.“

„Síðan eru hlutir nú þegar svona á hreyfingu sem er enn óvíst með. Til dæmis hvernig þetta fer með framtíðareignarhald á Íslandsbanka. Það er ekkert orðið skýrt í þeim efnum,“ sagði hann og bætti við að það eina sem liggi fyrir sé að bankasýslan sé að undirbúa hlut á 30 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum.

Þannig að fólk getur andað rólega?

„Já það er ekkert að fara að gerast á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×