Miðborgarvaka hefst í kvöld ásamt tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves og voru listaverkin gerð af því tilefni. „Þetta eru einkum og sér í lagi erlendir listamenn sem mála þessi verk. Þetta byrjaði allt með samtali framkvæmdastjóra Airwaves, Gríms Atlasonar, og þýskrar myndlistarkonu og ýttu þau þessu verkefni af stað,“ segir Jakob Frímann um upphafið. Verkin eru samstarfsverkefni tónlistarhátíðarinnar og samtakanna og bera yfirskriftina Wall Poetry 2015.
Miðborgarvaka fer ávallt fram á sama tíma og Airwaves-hátíðin og þá er mikið um að vera í miðborgarsamfélaginu. „Það er til að mynda opið lengur í verslunum og miðborgin mun iða af lífi og hvetjum við fólk til að koma og njóta Airwaves-stemningarinnar í miðbænum, með öllum þeim möguleikum sem í boði eru eins og off-venue viðburðum og opnum verslunum,“ segir Jakob Frímann, sem sjálfur ætlar að vaka lengi fram eftir og ganga að göflunum.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af listaverkum.


