Lögmaður tveggja kvenna, sem kært hafa tvo karla fyrir kynferðisbrot, segist ætla að kæra lögmanninn Vilhjálm H. Vilhjálmsson, sem er verjanda annars sakborninganna í málinu, fyrir að leka trúnaðarupplýsingum.
Lögmaður kvennanna, Jóhanna Sigurjónsdóttir, greindi frá þessu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, en þar sagðist Jóhanna óttast að ítarleg umfjöllun í fjölmiðlum um mál kvennanna kunni að hafa spillt fyrir rannsókn málsins.
Í Fréttablaðinu í dag er vísað í skýrslu annarrar konunnar hjá lögreglu. Jóhanna sagði að opinber umfjöllun um kynferðisafbrot væri brotaþolum þungbær og sagði að í þessu máli hefðu komið fram ítarlegar atvikalýsingar.
Hún sagði slíkar lýsingar, hvort sem þær eru réttar eða rangar, kunna að hafa áhrif á vitni sem eiga eftir að gefa skýrslu hjá lögreglunni.
Jóhanna sagði engan vafa leika á því að Vilhjálmur hefði brotið gegn starfsskyldum sínum sem verjandi í þessu máli og brotið þar með gegn ákvæðum hegningarlaga, ákvæðum laga um meðferð sakamála, lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna.
Ætlar að kæra Vilhjálm fyrir leka

Tengdar fréttir

Skýrsla kæranda lýsir notkun tóla
Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu í kynferðisbrotamáli kemur fram að annar meintra gerenda hafi bundið hendur hennar með keðju. Þá hafi hún verið slegin með svipu. Tvær kærur verið lagðar fram. Málið í forgangi hjá lögreglu.