Innlent

Þungfært í íbúðargötum: Lögreglan varar fólk við að vera á ferðinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alls eru um 30 tæki á götum Reykjavíkur að vinna að snjómokstri.
Alls eru um 30 tæki á götum Reykjavíkur að vinna að snjómokstri. Vísir/Pjetur

Unnið er hörðum höndum að að snjómokstri á höfuðborgarsvæðinu. Í nótt kyngdi niður snjó og mældist snjódýpt í Reykjavík um 32 sentimetrar. Lögreglan ráðleggur þeim sem ekki eiga brýn erindi að vera ekki á ferðinni en þungfært er í íbúðargötum.

„Mér brá bara þegar ég fór út klukkan þrjú í nótt, það var búið að snjóa svo mikið,“ segir Halldór Þórhallsson, verkstjóri hjá Reykjavíkurborg. „Það voru allir ræstir út klukkan fjögur í nótt, tíu vélar, og við erum búnir að gera kraftaverk með stofngötur og aðalleiðir sem eru að mestu greiðfærar.“

Rúnar Sigurpálsson, varðstjóri í umferðardeild, segir að umferð hafi verið róleg í morgun enda íbúðagötur víða þungfærar. Hann varar fólk við að vera á verðinni nema brýna nauðsyn beri til.

„Ég ráðlegg þeim sem eiga ekki brýn erindi að vera ekkert á verðinni og að þeir sem að fara annað borð á stað að vera þá sæmilega vel búnir því fólk er víða í basli.“

Að sögn Halldórs hjá Reykjavíkurborg voru 20 vélar til viðbótar ræstar út til þess að hreinsa íbúðagötur en þar sem mikill snjór er á götunum býst hann við að það muni taka sinn tíma.

Unnið verður til 17. 30 í dag og ef ekki tekst að hreinsa íbúðagötur hefst vinna við það aftur klukkan níu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×