Í frétt BBC um málið kemur fram að grunur leiki á að lekinn sé samsæri gegn Engonga. Það hefur hins vegar reynst fjölmiðlum erfitt að staðreyna upplýsingar í málinu enda ríkir ekki fjölmiðlafrelsi í landinu.
Það liggur aftur á móti fyrir að fyrrgreindum myndböndum hefur verið lekið. Í frétt BBC segir að Engonga hafi fengið viðurnefnið „Bello“ þar sem hann þyki einstaklega myndarlegur. Kynlífsmyndböndin hafi mörg hver tekin á skrifstofu Engonga, sem gegnir embætti forstjóra fjármálaeftirlits landsins, og virðist konurnar margar meðvitaðar um að verið sé að taka þær upp.
Þrátt fyrir stöðu hans innan fjármálaeftirlitsins var Engonga sjálfur rannsakaður fyrir fjármálamisferli og handtekinn 25. október síðastliðinn fyrir skattsvik. Fartölva hans var tekin í aðgerðum lögreglu og nokkrum dögum síðar fóru myndböndin umræddu í dreifingu víða á netinu.
Engonga er frændi forsetans Teodoro Obiang Nguema, sem nú er kominn á 82 aldursár, en Engonga hefur lengi talinn með líklegustu mönnum til að taka við af Nguema. Sá hefur verið við völd frá árinu 1979 og endurkjörinn nokkrum sinnum, á milli þess sem pólitískir andstæðingar hans hafa verið fangelsaðir eða teknir af lífi.
Miðbaugs-Gínea er eins og áður segir eitt fátækasta ríki heims en þar búa um 1,7 milljónir manna. Þetta er ekki fyrsti skandallinn sem kemur upp í ríkinu. Margir skandalar tengjast syni Nguema forseta, Teodoro Obiang Mangue, sem nú er varaforseti. Sá hefur lifað glamúrlífi og átti á einum tímapunkti demantshanska sem áður var í eigu Michael Jackson. Sá hanski var metinn á 42 milljónir króna.
