Innlent

Skautasvell á Ingólfstorgi á aðventunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framkvæmdir við skautasvellið hófust í dag.
Framkvæmdir við skautasvellið hófust í dag. Vísir/Anton

Glöggir borgarbúar sem hafa átt leið um miðborgina í dag hafa líklega tekið eftir því að nú standa yfir framkvæmdir á Ingólfstorgi. Þar stendur til að vera með skautasvell á aðventunni.

Skautasvellið mun opna á þriðjudaginn eftir helgi og verður það opið frá hádegi fram eftir kvöldi til og með 23. desember. Frítt verður inn og verður hægt að leigja skauta og svokallaðar skautagrindur til þess að aðstoða minnstu krakkana.

Framkvæmdir hófust í dag en það er fyrirtækið Nova sem stendur fyrir þessu. Hjálmar Sveinsson, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segir að ráðið hafi tekið vel í þessa hugmynd þegar hún kom á þeirra borð.

„Nova bauðst til þess að sjá um þetta og þetta þýðir að hluti Ingólfstorgs verður skautasvell og hluti verður jólamarkaður,“ en á jólamarkaðinum verður hægt að kaupa veitingar og ýmiskonar jólavarning.

Skautasvellið er nokkuð stórt eða um 400 fermetrar en þetta er ekki í fyrsta sinn sem skautasvell er sett upp á aðventunni, það var fyrst gert árið 2006. Undanfarin ár hefur Ingólfstorg verið undirlagt jólamarkaði á aðventunni sem verður nú minni en venjulega svo skapa megi pláss fyrir skautasvellið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×