Innlent

Afar slæmt veður í kortunum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Enn er lokað um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu.
Enn er lokað um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. mynd/lögreglan

Enn er lokað um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu.  Ekki hafa borist fregnir af snjóflóðum í nótt en það verður kannað strax í birtingu.

Þá telur Veðurstofan mikla snjóflóðahættu vera á utanverðum Tröllaskaga þar sem mikið er af nýföllnum og óstöðugum snjó. Jafnframt er talin töluverð hætta á norðanverðum Vestfjörðum og nokkur hætta á Austfjörðum.

Spáð er minnkandi norðlægri átt með éljum fyrir norðan, en Veðurstofan vekur athygli á mjög slæmri veðurspá fyrir morgundaginn. Búist er við vaxandi austanátt í kvöld og nótt og hvassviðri eða stormi á austanverðu landinu, eða allt upp í 25 metra á sekúndu, með snjókomu og skafrenningi.

Á vef Veðurstofunnar segir að þar sem saman fari vindur og hiti undir frostmarki ásamt lausum snjó, megi búast við miklum skafrenningi og að einnig komi til með að snjóa að auki. Við slíkar aðstæður verði færðin afar slæm og ekkert ferðaveður.

Þá er hálka eða hálkublettir víðast hvar á landinu, samkvæmt Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×