Innlent

Fárviðrið náði ofsa þriðja stigs fellibyls

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fárviðrið náði veðurofsa fellibyls á nærri fimmtíu veðurstöðvum víða um land í gærkvöldi og í nótt. Fellibyljir hitabeltisins eru þó eðlisólíkir óveðurslægðinni og því telst hún ekki vera fellibylur.

Vindhraði fyrsta stigs fellibyls, eða fárviðri yfir 33 metrar á sekúndu í tíu mínútur samfellt, mældist á 44 veðurstöðvum í gær og í nótt; í byggð meðal annars í Vestmannaeyjum, Öræfum, undir Eyjafjöllum, í Landeyjum, á Hólmsheiði, Kjalarnesi, í Hvalfirði, Ísafjarðardjúpi, við Blönduós og á Skagatá.

Fárviðrið náði ofsa annars stig fellibyls, yfir 43 metrum á sekúndu, á þremur veðurstöðum; á Þverfjalli á Vestfjörðum (47,6 m/s), á Stórhöfða (46,7 m/s) og á Skálafelli (44,1 m/s), samkvæmt tölum sem Trausti Jónsson veðurfræðingur tók saman.

Met gærkvöldsins á þó Hallormsstaðaháls með 50,9 metra á sekúndu samfellt í tíu mínútur. Það er ígildi þriðja stigs fellibyls, sem er vindhraði yfir 49 metrar á sekúndu í tíu mínútur.

Einstaka vindhviður slógu raunar upp í hæstu stig fellibylja. Undir Eyjafjöllum mældust vindhviður yfir 60 metrum á sekúndu og mesta vindhviða á Hallormsstaðahálsi fór 72,6 metra á sekúndu. Fjórða stig fellibyls næst við 58 metra á sekúndu í tíu mínútur samfellt. Fimmta og efsta stig næst við 70 metra á sekúndu í tíu mínútur samfellt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×