Töluvert meiri en maður myndi halda samkvæmt Sigrúnu Helgu Lund sem ætti að vita það, hún er jú með doktorsgráðu í tölfræði. Hún og dóttir hennar urðu báðar níu ára á einstökum óviðrisdögum.
Sigrún Helga hélt upp á níu ára afmæli sitt þann 3. febrúar 1991 þegar eitt versta óveður sem skollið hefur á Ísland reið yfir landið líkt og Vísir hefur rifjað upp. Svo skemmtilega vill til að dóttir Sigrúnar Helgu á níu ára afmæli í dag, deginum sem reiknað er með að versta óveður síðan hið fræga óveður frá 1991 muni skella á Íslandi.

Hún missti þó ekki af storminum árið 1991 sem er henni enn í fersku minni.
„Við ætluðum að hafa pítsur í matinn sem var mjög nýmóðins á þeim tíma. Vandamálið var að það varð rafmagnslaust þannig að við sátum bara uppi með helling af deigi.“
En mætti einhver í afmælið?
„Það voru mjög hugrakkir foreldar sem sem löbbuðu með krakkana sína í afmælið. Við vorum helst í því að leika okkur með kertaljós og ég man hvað það var mikil hamingja þegar rafmagnið kom á.“
Dóttir Sigrúnar Helgu mun reyndar ekki feta í fótspor móður sinnar og halda upp á afmæli sitt í kvöld á meðan veðrið verður vitlaust. „Nei, hún ætlar bara að hafa það gott heima í kvöld og halda upp á afmælið seinna.“
Ekki óvitlaust enda er fólk eindregið beðið um að halda sig innandyra í kvöld á meðan veðrið verður sem verst en sjá má myndir af óveðrinu 1991 hér fyrir neðan.


