Innlent

Ekki viðrar til ferðalaga

Sveinn Arnarsson skrifar
Ekki er von á góðu í dag.
Ekki er von á góðu í dag. Fréttablaðinu/Stefán
Fárviðri mun ganga yfir sunnan og vestanvert landið og ná hámarki rétt eftir hádegi SV-lands með miklum vindi og áframhaldandi ofankomu. Veðrið mun leika höfuðborgarsvæðið grátt fram eftir degi og snjóa líklega fram undir kvöld.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir lítið sem ekkert ferðaveður í kortunum í dag. „Það bætir í vind þegar líður á daginn með snjókomu. Einnig er mikið af lausum snjó sem mun fara af stað og spilla færð á tiltölulega skömmum tíma,“ segir Eiríkur. „Síðan mun veðrið ganga yfir landið en það verður að öllum líkindum verst á suðvestanverðu landinu.“ 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu til að vara fólk við veðrinu á morgun og biðlar til einstaklinga á illa útbúnum bifreiðum til vetraraksturs að halda kyrru fyrir og bíða af sér storminn. „Skólar verða opnir í fyrramálið en hvert og eitt foreldri verður að meta hvort að börnin skuli fara í skóla eða hvort að þau skuli halda sig heimavið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Í kvöld mun svo draga mjög úr vindi og ofankomu sunnan og vestanlands, en hvessir norðan og austan til. Það eru því líkur til að lítið ferðaveður verði á landinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×