Birna lét hendur standa fram úr ermum og bjó til sitt eigið efni til glimmergerðarinnar, en hún hefur verið iðin við að prófa sig áfram þegar kemur að snyrtivörum, og sýnt afraksturinn við góðan orðstír á YouTube-rásinni sinni, þar sem hún gengur undir nafninu birnamagg. Hefur glimmerskeggið vakið heilmikla athygli og greinilega þörf á upplyftingu fyrir skeggjaða.
Þó svo að útkoman hafi verið stórbrotin er vinnan að baki dýrðinni mun minni en menn gætu ímyndað sér og því á svo gott sem allra færi.

Birna segist hafa fengið fjölda fyrirspurna varðandi uppátækið. „Já, fólk hefur sýnt þessu mikinn áhuga og hefur mjög gaman af þessu. Toggi hefur meira að segja fengið nýjar vinabeiðnir á Facebook út á glimmerskeggið. Svo virðist fólk líka vera mjög áhugasamt um hvernig húsið mitt líti út, en ég er auðvitað löngu búin að moppa.“ Skyldi ekki hafa verið bölvað vesen að ná þessu úr skegginu?
„Nei, alls ekki, ein góð sturtuferð og smá sjampó,“ svarar Birna að lokum og hvetur aðra skeggvaxna og glimmersinnaða til að láta slag standa. „Þó ekki nema til að eiga bara af sér mynd með glimmerskegg.“
Hér má fylgjast með Birnu glimmerskreyta skegg Togga: