Viðskipti erlent

Jólaútsölur hófust í Lundúnum í morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Að venju ætlaði allt um koll að keyra þegar hefðbundnar jólaútsölur hófust í Lundúnum í dag. Margir höfðu beðið við dyr verslana frá því í nótt til að verða fyrstir að ná sér í útsöluvarning.

Bretar kalla annan í jólum Boxing Day og löng hefð er fyrir því að á þeim degi séu haldnar útsölur í Lundúnum. Helstu verslanagötur eins og Oxford stræti voru þess vegna þétt skipaðar lundúnarbúum sem og ferðamönnum snemma í morgun sem vildu freista þess að gera kostakjör.

Ferðamaður í borginni var að kynnast útsöluæðinu í Lundúnum í fyrsta skipti og hafði beðið frá því klukkan sex í morgun fyrir utan stórverslunina Selfridge en gafst að lokum upp. Hann var þó hæst ánægður með daginn.

Og sumir höfðu spáð í verð á vörum fyrir jól og gátu vart beðið eftir að sjá hvað þær lækkuðu í verði. Ung kona var himinlifandi þegar hún sá að sumar vörur höfðu lækkað úr 20 pundum allt niður í 5 pund.

Hins vegar voru líka þeir sem létu sig fátt um finnast og voru sannfærðir um að ekki væri verið að bjóða upp á bestu vörurnar á útsölunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×