Innlent

Spáir þokkalegu rakettuveðri á gamlárskvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Pjetur
Útlit er fyrir þokkalegasta veður þegar nýtt ár gengur í garð næstkomandi fimmtudagskvöld. Í textaspá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir suðlægri átt og dálitlum éljum, einkum sunnan til, en fremur kalt í veðri. 

Sé litið til veðurs á norska vefnum Yr.no þá spáir um þriggja stiga frosti á gamlársdagskvöldi, eilítilli ofankomu og suðaustanátt, fjórum metrum á sekúndu. Á Akureyri verður kaldara, sex gráðu frost, en þó engin ofankoma samkvæmt spánni, og gert ráð fyrir hægum andvara úr suðri. 

Er veðrið fremur svipað þessari spá um allt land ef undanskildar eru Vestmannaeyjar. Þar verður suðaustan átt á gamlárskvöld en þó nokkrum metrum öflugri, um 10 metrar á sekúndu. Er einni spáð rigningu og eins stigs hita.

Að öðru leyti er textaspá Veðurstofu Íslands fyrir vikuna svohljóðandi: 

Minnkandi norðlæg átt og víða hæg suðlæg eða breytileg átt í dag og léttskýjað síðdegis, en austlæg átt, 8-15 og dálítil snjókoma eða él við S-ströndina. Frost 5 til 20 stig, kaldast í innsveitum NA-lands. Suðaustan 8-15 og rigning eða slydda S- og V-til á morgun, annars hægari og bjart að mestu. Dregur talsvert úr frosti og hlánar S- og V-lands síðdegis og annað kvöld.

Á sunnudag:

Gengur suðaustan 15-23 m/s með snjókomu eða slyddu, en síðan rigningu. Lengst af hægari og þurrt á N- og A-landi. Hlýnandi veður.

Á mánudag:

Suðaustanátt, hvassviðri eða stormur A-til, en annars mun hægari. Rigning og talsverð rigning SA-lands, en él V-til síðdegis. Fremur hlýtt í veðri, en kólnar smám saman um landið V-vert.

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt með slyddu eða snjókomu, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti um og undir frostmarki.

Á miðvikudag:

Norðlæg átt og fremur úrkomusamt austantil, en vestlægri síðdegis og úrkomuminna. Yfirleitt þurrt um landið V-vert. Vægt frost víðast hvar.

Á fimmtudag (gamlársdagur):

Útlit fyrir suðlæga átt og dálítil él, einkum sunnantil, en fremur kalt í veðri.    




Fleiri fréttir

Sjá meira


×