Innlent

Líkur á að LÍN þurfi aukið ríkisframlag

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Illugi Gunnarsson segir ekki víst að náist að koma frumvarpi um heildarendurskoðun á LÍN fram á yfirstandandi þingi.
Illugi Gunnarsson segir ekki víst að náist að koma frumvarpi um heildarendurskoðun á LÍN fram á yfirstandandi þingi. vísir/gva
Innheimtuhlutfall Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur versnað á síðustu árum og líkurnar hafa aukist á því að ríkið þurfi að leggja sjóðnum til aukið fé. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir áhættu sjóðsins hafa aukist.

„Við horfum framan í það að það er aukin áhætta í sjóðnum frá því sem var. Líkurnar á því að það þurfi að auka ríkisframlag vegna þess að innheimtuhlutfall hefur versnað verða meiri.“

Illugi vísar í úttekt sem stjórn sjóðsins lét gera árið 2013, en staðan hefur lítið breyst síðan þá. Í henni kemur fram að nafnvirði útlána sjóðsins jókst um nær 60 prósent á árunum 2008 til 2012, úr 117 í 185 milljarða. Afskriftir uxu hins vegar hraðar, eða um 67 prósent.

Samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar er núvirði meðalláns hjá sjóðnum, sem nemur 3,5 milljónum, 69 prósent. Mikil fjölgun hefur orðið á þeim sem fá undanþágur á afborgunum námslána.

Þá hefur tími sem námsmenn eru við nám lengst og í skýrslunni kemur fram að heildarlán þeirra sem hafa lán yfir 7,5 milljónir hafa aukist úr 5 í 26 milljarða og samtala lána þeirra sem skulda meira en 12,5 milljónir hafði aukist úr 1 í 9 milljarða.

Ný heildarlög um LÍN eru á þingmálaskrá, en litlar líkur eru á að þau komi fram á yfirstandandi þingi, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

„Það er verið að vinna að endurskoðun og ekki víst að það takist að koma henni fram í vor,“ segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×