Nú síðast var það leikkonan Elizabeth Olsen, systir tískudrottninganna og tvíburanna Mary-Kate og Ashley Olsen, sem klæddist hvítum og dökkbláum kjól úr smiðju merkisins á frumsýningu Avengers: Age of Ultron í Los Angeles.

Í mörgum tilfellum klæðast stjörnurnar hönnun sem þær fá senda í gegnum stílista sína og PR-skrifstofur. Sú var þó ekki raunin þegar ein þekktasta poppstjarna heims, Rihanna, klæddist í tvígang flík frá Galvan í febrúar síðastliðnum.
„Rihanna keypti og valdi samfestinginn og kjólinn sjálf,“ segir Sólveig. Rihanna, sem þekkt er fyrir það að vera mikill frumkvöðull þegar kemur að tísku, klæddist dökkbláum Galvan-samfestingi í partíi eftir Grammy-verðlaunahátíðina en fatnaðinn keypti hún í fataversluninni Opening Ceremony í Los Angeles.

Sólveig segir það hafa haft góð áhrif á söluna en kjóllinn seldist í kjölfarið upp í tveimur verslunum.
Stjörnurnar virðast því hrifnar af merkinu en leikkonan Sienna Miller klæddist kjól frá merkinu á síðasta ári og leikkonan Gwyneth Paltrow var í samfestingi frá Galvan í sjónvarpsviðtali í janúar en hún hefur áður klæðst flíkum frá merkinu, sem leggur áherslu á nútímalegan og svalan kvöldklæðnað.
„Það er margt spennandi fram undan hjá okkur hjá Galvan, en við erum meðal annars að hanna exclusive línu fyrir netverslunina Matchesfashion.com,“ segir Sólveig.
Fremur stutt er síðan Galvan var stofnað en merkinu var hleypt af stokkunum árið 2014 af Sólveigu ásamt Carolyn Hodler, Katherine Homgren og Anna-Christin Haas.