Innlent

Ráðherra vill meira frelsi á leigubílamarkaði

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ólöf Nordal
Ólöf Nordal vísir/ernir
„Mér finnst æskilegt að huga að því hvort það sé ekki hægt að auka frelsi á þessum markaði. Ég er talsmaður þess en hef þó ekki tekið neina ákvörðun,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra um leigubílamarkaðinn.

Fyrr á árinu var greint frá því að nýsköpunarfyrirtækið Uber hefði safnað nægilega mörgum undirskriftum til þess að hefja þjónustu sína í Reykjavík. Engin beiðni þess efnis hefur þó borist Samgöngustofu.

Uber er snjallsímaforrit sem býður upp á óhefðbundna leigubílaþjónustu. Setji snjallsímaeigendur upp Uber-appið geta þeir fundið næsta bílstjóra og sýnir appið hversu langt er í hann. Greiðsla fer svo fram í gegnum appið.

„Ég hef fylgst með Uber-flæðinu í útlöndum og er hrifin af því. Ég er þó ekki komin neitt af stað með að skoða það og veit ekki hvort það verði gert,“ segir Ólöf og bætir við að reglur á leigubílamarkaði á Íslandi séu mjög stífar.

Verðið á Uber-þjónustu hefur reynst lægra en á hefðbundinni leigubílaþjónustu. Fyrirtækið starfrækir þjónustu sína í 250 borgum og hefur vaxið hratt að undanförnu.

„Þetta er nýtt fyrirbæri sem mér finnst sjálfsagt að skoða,“ segir Ólöf sem lagði fram frumvarp á Alþingi fyrr á árinu um farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni. Það náði ekki fram að ganga.

„Það frumvarp tók ekki á þessu en við munum endurskoða frumvarpið á næstunni,“ segir Ólöf sem útilokar ekki að hún muni skoða hvort ástæða sé til að auka frelsi á umræddum markaði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×