Viðskipti erlent

Fjögurra billjóna tap á tæpri viku

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kínverskir fjárfestar stytta sér stundir í höfuðborg Kína, Beijing.
Kínverskir fjárfestar stytta sér stundir í höfuðborg Kína, Beijing. vísir/ap
27 ríkustu viðskiptajöfrar Kína og Hong Kong hafa tapað tæplega hundrað milljörðum Bandaríkjadala, um þrettán billjónum króna, á einum mánuði. Kínverskir markaðir byrjuðu að hrapa þann tólfta síðasta mánaðar. Þriðjungur tapsins átti sér stað fyrri hluta síðustu viku áður en stjórnvöld gripu inn í.

Markaðir tóku kipp í kjölfar þess að stjórnvöld stöðvuðu öll viðskipti með verðbréf næsta hálfa árið. Frá því í júní höfðu markaðir fallið um þriðjung og ekki sá fyrir endann á því.

Kína er það land sem á flesta milljarðamæringa á eftir Bandaríkjunum. Til að mynda ná 27 þeirra inn á lista yfir 400 ríkustu menn heimsins. Eignir þeirra nema um 262 milljörðum dala, tæpum 35 billjónum íslenskra króna, en sú upphæð nemur um sex prósentum af samanlögðum eignum þeirra 400 ríkustu.

„Ég ætla rétt að vona að þessir menn átti sig á því að þetta voru allan tímann hálfgerðir platpeningar,“ segir Niklas Hageback, sem starfar í Hong Kong. „Það er nauðsynlegt ætli þeir að halda geðheilsu.“

Síðan í júní hafa markaðir fallið um þrjár billjónir dala. Til samanburðar er rétt að nefna að það er um tuttuguföld sú upphæð sem áætlað er að afskriftir gríska ríkisins muni nema þegar upp er staðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×