Viðskipti erlent

Seðlabankastjóri varar við afskiptum pólitíkusa

jón hákon halldórsson skrifar
Janet Yellen birti þingnefnd skýrslu sína í gær. Hún varar við afskiptum stjórnmálamanna af seðlabankanum.
Janet Yellen birti þingnefnd skýrslu sína í gær. Hún varar við afskiptum stjórnmálamanna af seðlabankanum. Nordicphotos/afp
Janet L. Yellen, aðalbankastjóri seðlabanka Bandaríkjanna, varaði þingmenn við tillögum þess efnis að auka afskipti stjórnmálamanna af seðlabankanum. Slíkt myndi valda öllu hagkerfinu skaða.

Yellen ræddi þetta í skýrslu sem hún skrifaði fyrir fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í gær. Á vef The New York Times segir að þessi yfirlýsing Yellen sé til þess fallin að auka á spennu í samskiptum löggjafans og seðlabankans.

„Hversu góður hugur sem kann að vera að baki áformum um að auka gagnsæi, þá mega þær alls ekki koma í veg fyrir að bankinn geti mótað stefnu í þágu bandarískra fjölskyldna og fyrirtækja,“ sagði Yellen í skýrslunni.

Yellen sagði að peningastefna seðlabankans hefði ekkert breyst á undanförnum vikum. Bankinn vænti þess enn að stýrivextir verði hækkaðir síðar á árinu, að því gefnu að hagvöxtur verði í takt við væntingar. „Þegar horft er til framtíðar þá er útlit fyrir jákvæða þróun á atvinnumarkaðnum og i efnahagslífinu í víðara samhengi,“ sagði Yellen við þingnefndina.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að seðlabankinn eigi að bíða til næsta árs með að hækka vexti. Nokkrir úr bankastjórn seðlabankans eru sammála. Yellen sagði hins vegar í gær að stefna meirihluta bankastjórnarinnar hefði ekki breyst. Og hún gaf til kynna að útlit í efnahagsmálum væri betra en búist var við. Olíuverð lágt, vextir lágir, fleira starfsfólk ráðið í störf. Þá nytu Bandaríkin góðs af afleiddum áhrifum af aðgerðum sem ráðist hefur verið í í öðrum ríkjum til að örva hagvöxt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×