Viðskipti erlent

Óværð á mörkuðum fyrstu viku ársins

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kauphöllum var lokað tvisvar sinnum í vikunni í Kína eftir að hlutabréf hríðféllu.
Kauphöllum var lokað tvisvar sinnum í vikunni í Kína eftir að hlutabréf hríðféllu. vísir/getty
Viðskipti Miklar sveiflur hafa átt sér stað á hlutabréfamörkuðum heimsins þessa fyrstu viðskiptaviku ársins. Kauphallir í Kína lokuðu tvisvar sinnum, í síðara skipti eftir innan við hálftíma af viðskiptum þar sem hlutabréf höfðu fallið um sjö prósent.

Eftir lokun kauphallanna á mánudaginn féllu hlutabréf víðs vegar um heiminn í verði, verst voru áhrifin í Þýskalandi þar sem þau féllu um 3,8 prósent. Rólegra var á þriðjudaginn og miðvikudaginn en eftir að mörkuðum í Kína var lokað aftur í gær lækkuðu evrópsk hlutabréf um tvö prósent.

Hlutabréfagengi erlendis fór að hafa áhrif á íslenskum markaði í gær. Íslenska úrvalsvísitalan OMXI8 lækkaði um 1,24 prósent í gær. Rauður dagur var í Kauphöllinni þar sem meirihluti skráðra fyrirtækja lækkaði í verði. Hlutabréf í Marel lækkuðu mest eða um 2,18 prósent í 464 milljóna króna viðskiptum.

„Íslenskt efnahagslíf og fyrirtæki eru ekki ónæm fyrir ástandi heimsmála. Minni eftirspurn í einu landi hefur áhrif á útflutning og þar með eftir­spurn í öðru landi. Að lokum koma áhrifin fram í tekjum og afkomu félaga á Íslandi eins og í öðrum opnum hagkerfum. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn endurspeglar samt ekki nema að hluta til efnahagslíf í hinum stóra heimi. Íslenskir fjárfestar fylgjast að sjálfsögðu með því sem er að gerast á erlendum mörkuðum og ég á von á að þeir flestir taki tillit til erlendrar þróunar og breytinga á innbyrðis verðlagningu íslenskra og erlendra félaga,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Hann segir þó aðra þætti hafa áhrif, t.d. lækkun eldsneytisverðs, vaxtaþróun, innflæði í sjóði, horfur um ríkisskuldir, verðbólgu og fjölda ferðamanna. „Þegar allt er dregið saman hafa fjárfestar á íslenska hlutabréfamarkaðinum greinilega komist að þeirri niðurstöðu á fyrstu dögum nýs árs að hér hafi aðstæður ekki versnað,“ segir Stefán Broddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×